Nútímalegar samgöngur
Nútímalegar, greiðar og öruggar samgöngur – uppbygging öflugra innviða með valfrelsi og fjölbreytni að leiðarljósi.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að ráðist verði í róttækar úrbætur í samgöngum með hraðari uppbyggingu og betri nýtingu fjármuna, meðal annars með samstarfsverkefnum ríkis og einkaaðila. Með því er lagður grunnur að meira öryggi, öflugri byggðum, atvinnusköpun og auknum hagvexti.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar áformum um stóraukin framlög til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2019 var gengið frá samgöngusáttmála milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með honum skal tryggja bættar samgöngur og frelsi fólks þegar kemur að samgöngumáta, hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, almenna bifreiðaumferð, gangandi eða hjólandi. Einn samgöngumáti á ekki að þrengja að öðrum.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að þetta mikilvæga verkefni sé undirbúið vel, kynnt vel fyrir íbúum svo um það skapist góð sátt. Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna þannig að markmið um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum náist.
Ráðast þarf í flýtiframkvæmdir í samgöngum á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila, en þannig er hægt að ná fram hraðari uppbyggingu samgöngumannvirkja. Sundabraut er gott dæmi um aðkallandi og nauðsynlega framkvæmd sem hægt væri að vinna með þeim hætti
Aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt. Móta skal áætlun um gerð jarðganga til lengri tíma, styrkingu ferjuleiða og viðhald flugvalla og uppbyggingu varaflugvalla.
Greiðar og öruggar samgöngur eru mikilvægar undirstöður atvinnulífs og styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga landsins.
Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið og er því brýnt að hann verði óbreyttur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.