Græn orkubylting og loftslagsmál

Ísland taki forystu í orkuskiptum með því að nýta græna innlenda orku

Sjálfstæðisflokkurinn er og ætlar áfram að vera leiðandi í aðgerðum og breytingum sem eru nauðsynlegar til að stemma stigu við loftlagsbreytingum. Við lítum á það sem skyldu okkar að vinna gegn loftslagsvánni til að verja lífsgæði okkar og afkomenda okkar. Í aðgerðunum felast efnahagsleg tækifæri.

 

Loftslagsmál og orkumál verða ekki skilin að, enda eru orkuskiptin helsta framlag Íslands til umhverfismála. Staða Íslands í orkumálum er öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa.

 

Græna orkubyltingin kallar á aukna notkun á bæði raforku og rafeldsneyti sem Ísland er í kjörstöðu til að framleiða. Efnahagslegur ávinningur af grænni orkubyltingu er mikill en árlega verja Íslendingar um 80-120 milljörðum króna í eldsneytiskaup frá útlöndum.

 

Það er raunhæft fyrir Ísland að skipta um orkugjafa í bílum, á sjó og í flugi. Þannig getum við notað okkar eigin grænu orku, sparað gjaldeyri og um leið skapað nýja, hugvitsdrifna atvinnugrein.

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland stigi skrefið til fulls, sé leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu með metnaðarfullum aðgerðum og verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að besta leiðin til árangurs sé skýr, árangursmiðuð stefna sem byggir á ítarlegum rannsóknum og greiningum, með gildi flokksins að leiðarljósi. Ívilnanir og jákvæðir hvatar eru besta tækið til að fá atvinnulífið og einstaklinga til að draga úr losun. Grænir skattar eiga ekki að hafa það markmið að auka tekjur hins opinbera. Þeir eiga að vera tímabundið úrræði sem hættir að skapa tekjur þegar kolefnishlutleysi hefur verið náð. Skapa þarf enn frekari hvata til fjárfestinga í grænum lausnum. 


Sjálfstæðisflokkurinn minnir á að Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri.