Fjölbreytni í menntakerfinu
Við munum auka fjölbreytni í menntakerfinu – til að halda í við öra þróun samfélags og þarfir atvinnulífs.
Sjálfstætt starfandi skólar njóti jafnræðis.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og jöfn tækifæri til menntunar, og að auk opinbers rekstrar séu kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Hið opinbera á að greiða það sama með hverjum nema, óháð rekstrarformi skólans sem hann sækir.
Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers og eins þannig að nemendur nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum, en þeir standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Grunnskólar eiga að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar til að búa nemendum betri grunn fyrir nám á þeim sviðum á framhaldsskólastigi.
Iðn- og tækninám er ein grunnstoð fjölbreytts og öflugs atvinnulífs og ýtir undir nýsköpun.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar auknum áhuga ungs fólks á þeim greinum. Tryggja verður að menntastofnanir geti mætt þeim áhuga og sinnt sívaxandi þörfum atvinnulífsins fyrir iðn- og tæknimenntað starfsfólk.
Gera á stórátak í netvæðingu og tryggja aðgang að stafrænu háskólanámi á Íslandi. Fólk á að geta menntað sig óháð búsetu, fjölskylduaðstæðum, fjárhag eða vinnu.
Styrkja skal háskólanám um allt land og tryggja gæði þess.