Lækkun skatta

Við lofum lækkun skatta – í þágu heimila og fyrirtækja.

Skattakerfisbreytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um allt frá 2013 hafa miðað að því að létta byrðar launafólks, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun. 

Skattkerfisbreytingar tímabilsins hafa lækkað skatta á heimili og má ætla að hækkun ráðstöfunartekna heimila vegna þeirra nemi 30 milljörðum króna á árinu 2021. 

Samkvæmt tölum Hagstofunnar jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um liðlega 30% frá 2013 til 2020. 


Lækkun tekjuskatts einstaklinga

Allt frá 2013 hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið að því að hrinda í framkvæmd kerfisbreytingum á tekjuskatti einstaklinga með það að markmiði að létta skattbyrði launafólks og auka ráðstöfunartekjur heimilanna. 

Kerfisbreytingarnar voru annars vegar á árunum 2016/17 þegar milliþrep tekjuskatts var lagt niður og tekjumörk skattþrepa breytt. Við þetta lækkaði tekjuskattur um 9-10 milljarða króna. 

Árin 2020 og 2021 voru gerðar róttækari breytingar með því að taka upp nýtt lægra skattþrep. Markmið breytinganna voru þau sömu – lækka skattbyrði einstaklinga og þá sérstaklega þeirra sem eru tekjulágir. Eftir sitja fleiri krónur í vösum skattgreiðenda, en fólk með mánaðarlaun á bilinu 350-400 þúsund krónur hefur t.a.m. um 10 þúsund krónum meira milli handanna í hverjum mánuði. 

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur tekjuskattur einstaklinga lækkað um liðlega 31 milljarð króna. 

Í heild má því áætla að tekjuskattur einstaklinga hafi lækkað um yfir 40 milljarða á ársgrunni frá því að Bjarni Benediktsson tók við fjármálaráðuneytinu 2013. 


73 þúsund manns nýtt skattfrjálsa ráðstöfun séreignasparnaðar

Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir því að einstaklingum væri heimilt að nýta séreignasparnað – skattfrjáls – vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Annars vegar er búið að festa til frambúðar heimild til að nýta séreign í allt að 10 ár til kaupa og fyrstu íbúð og hins vegar tímabundin heimild til 2023 til að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á höfuðstól íbúðalána. 

Alls hafa um 60 þúsund manns greitt séreign skattfrjálst inn á lán sín, og 13 þúsund til viðbótar til fyrstu kaupa en síðustu árin hafa alls um 160 milljarðar króna verið greiddir inn á lán einstaklinga með stuðningi stjórnvalda.


Hærri barnabætur og minni skerðingar

Undanfarin ár hafa barnabætur hækkað (krónutala) og skerðingarmörk verið hækkuð (þ.e. hafa má hærri tekjur og samt fá barnabætur). Breytingin er ein af mörgum undanfarin ár sem kemur sér sérstaklega vel fyrir tekjulægri fjölskyldur.

Framlög til barnabóta hækkuðu um 37% frá 2017 til 2020, eða úr 9,5 milljörðum 2017 í 13,1 milljarð árið 2020 auk 3ja milljarða framlags 2020 í sérstaksbarnabótaauka vegna Covid-19.


Hærri skattleysismörk erfðafjárskatts

Skattfrelsismark erfðafjárskatts var hækkað úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. í ársbyrjun 2021 og mun framvegis taka árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. 


Sumarhús – afnám skatts á söluhagnað

Frá og með 2020 er sala á frístundahúsnæði í eigu einstaklinga skattfrjáls með sama hætti og af íbúðarhúsnæði enda fari heildarrúmmál eignarinnar og íbúðarhúsnæðis ekki fram úr 600 rúmmetrum hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetrum hjá hjónum. Viðkomandi þarf að hafa átt eignina í sjö ár eða lengur. Um leið var tryggt að söluhagnaður skerði í engu réttindi til ellilífeyris Almannatrygginga. Þetta er sérstakt réttlætismál ekki síst fyrir eldri borgara.


Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Fram til loka þessa árs er geta einstaklingar fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu manna við íbúðarhúsnæði að fullu – 100%. Heimild til endurgreiðslu nær einnig til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða. Rök standa til þess að full endurgreiðsla vegna íbúðarhúsnæðis verði gert varanleg.

Þá var einnig tryggð full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöð og uppsetningu við íbúðarhúsnæði.


Færri greiða fjármagnstekjuskatt – kerfið gert sanngjarnara og meira hvetjandi 

Frítekjumark var tvöfaldað um áramótin og eru nú fjármagnstekjur allt að 300 þúsund krónur skattfrjálsar, í stað 150 þús.kr. árið 2020. Þannig greiða færri fjármagnstekjuskatt en áður og skattur allra, lækkar, hlutfallslega mest hjá þeim sem hafa ekki háar fjármagnstekjur. Breytingin kemur sér m.a. sérstaklega vel fyrir eldri borgara. 

Auk þess er sú breyting gerð að frítekjumarkið nær nú einnig til úthlutaðs arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. 

Frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum manns af íbúðarhúsnæði var hækkuð úr 30% í 50% árið 2016.


Hvatar fyrir fólk og fyrirtæki til að styrkja almannaheillastarfsemi

Með nýjum lögum geta einstaklingar dregið framlög til almannaheillastarfsemi fyrir allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar. Markmiðið er að styrkja grundvöll fjölbreyttrar almannaheillastarfsemi og hvetja fólk til að taka beinan þátt, frekar en að styrkirnir fari í gegnum hið opinbera. 

Auk þess geta fyrirtæki dregið framlög sem nema allt að 1,5% af árstekjum frá skattskyldum tekjum sínum, en hlutfallið er nú 0,75%. Hækkun á hlutfallinu úr 0,5% í 0,75% öðlaðist 2016, en við þá breytingu hækkuðu framlög um ríflega þriðjung milli ára – eða um einn milljarð. 


Hvatar fyrir einkaaðila til að fjárfesta í grænum eignum

Frumvarp Bjarna sem var samþykkt í vetur. Breytingarnar eru tvenns konar. Annars vegar breyting sem frestar skattgreiðslum fyrirtækja með hraðari fyrningu eigna og býr þar með til frekara svigrúm til fjárfestinga nú þegar þess er þörf. 

Hins vegar er lögð til sérstök ívilnun til að styðja við umhverfisvænar fjárfestingar og græna umbreytingu hjá fyrirtækjum, þar sem heimilt verður að reikna sérstakt 15% fyrnanlegt álag á kaupverð grænna eigna.


Lægri skattar af tekjum vegna höfundaréttinda

Með lagafrumvarpi Bjarna sem varð að lögum haustið 2019 var skattlagningu höfundaréttargreiðslna breytt, þannig að þær teljast nú vera fjármagnstekjur. Af því leiðir að greiddur er fjármagnstekjuskattur af slíkum tekjum (22%) í stað tekjuskatts (36%) eins og áður var. Breytingin skiptir miklu fyrir fólk í skapandi greinum og bætir hag þeirra verulega. 


Lækkun tryggingagjalds

Tryggingagjald hefur lækkað stöðugt á vakt Sjálfstæðisflokksins. Árið 2013 stóð það í 7,69%, árið 2017 í 6,85% en árið 2021 er það 6,1%. 

Lækkun tryggingagjalds á ári nemur tæplega 26 milljörðum króna á ári. 


Lækkun álagna á vistvæna samgöngumáta 

Undir lok 2019 var samþykkt frumvarp Bjarna Benediktssonar um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, rafmagnsreiðhjóla, annarra reiðhjóla, hlaupahjóla og vistvænna bifhjóla. Markmiðið er að greiða fyrir orkuskiptum og vistvænum samgöngum með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Með lögunum voru fólki auðvelduð kaup á hvers kyns vistvænum hjólum með niðurfellingu virðisaukaskatts af slíkum farartækjum. Að auki var gildistími virðisaukaskattsívilnana fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar framlengdur til og með 31. desember 2023 og fjárhæðarmörk heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts og undanþágu frá skattskyldri veltu við kaup á rafmagns- eða vetnisbifreið einnig hækkuð.


Almenn vörugjöld felld niður

Árið 2015 voru almenn vörugjöld felld niður að frumkvæði Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu. Með því náðist fram baráttumál Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands skilaði breytingin sér í vasa neytenda. 


Afnám tolla

Í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins voru tollar felldir niður á öllum vörum, að búvörum undanskildum, um mitt ár 2015. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands skilaði breytingin sér í vasa neytenda.