Heilbrigðisþjónusta

Réttur til heilbrigðisþjónustu skal tryggður – ný þjónustutrygging setji fólk í fyrsta sæti.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur fólks til þjónustu tryggður. Með lögbundinni þjónustutryggingu verði fólk sett í fyrsta sæti. Sjúkratryggingar beri ábyrgð á því að sá sem þarf á þjónustu að halda fái hana innan ákveðins tíma – ásættanlegs biðtíma.

 

Nýta einkaframtakið – hagsmunir sjúkratryggða

Nýta þarf einkaframtakið mun betur og markvissar á sviði heilbrigðisþjónustu og fjárfestinga. Sjúkratryggingar Íslands verða að vera í stakk búnar til að rækja betur sitt hlutverk og einstaklingar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að eiga fleiri en einn valkost þegar kemur að sjúkrahússtarfsemi og almennri heilbrigðisþjónustu.

 

Ganga þarf frá samningum við rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu og skapa traust og vinnufrið. Langir biðlistar og tvöfalt heilbrigðiskerfi eru þjóðarskömm í velferðarsamfélagi þar sem allir eiga að njóta góðrar þjónustu án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn minnir á nauðsyn þess að skipuleggja alla heilbrigðisþjónustu með tilliti til þarfa og hagsmuna sjúkratryggða – allra landsmanna.

Heilstæð stefna í sjúkrahúsþjónustu 

Móta þarf heildstæða stefnu í sjúkrahúsþjónustu landsmanna. Landspítalinn þarf sem þjóðarsjúkrahús að sinna betur sínu skilgreinda hlutverki á sviði bráðalækninga, rannsókna og háskólakennslu. Innleiða á framleiðslutengda fjármögnun, svokallað DRG-kerfi. Landspítalinn á að sinna stærri og flóknari aðgerðum, auk þess að vera leiðandi sjúkrahús í sóttvörnum og öryggismálum hvað varðar lýðheilsu og heilsugæslu í landinu. Til að hann geti gegnt þessu forystuhlutverki þarf að gera honum kleift að draga úr annarri starfsemi með því að efna til og styrkja samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir, sérfræðilækna og aðra sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðisþjónustu.   

Aukið sjálfstæði eldri borgara – betri samþætting þjónustu

Skipulag þjónustu við aldraða þarf að endurskoða og tryggja að hún sé heildstæð og samfelld. Verkaskipting milli sveitarfélaga og ríkisins í öldrunarþjónustu verður að vera skýr. 

Markmiðið er að auka skilvirkni og bæta heildarþjónustu við eldri borgara, samþætta betur heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu og sálgæslu og styrkja heilsueflingu. Miða skal þjónustu og úrræði við þarfir hvers og eins. Byggja verður upp öfluga dagþjónustu, fjölga þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, en um leið auka sjálfstæði eldri borgara hvað varðar val á milli þess að búa sem lengst á eigin heimili eða dvelja á hjúkrunarheimili. 

Nýta ber betur sjálfstætt starfandi fyrirtæki á þessu sviði og tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt eldri borgara og fjárhagslegt sjálfstæði. Endurskoða verður fjármögnun hjúkrunarheimila, setja skýrari viðmið um þjónustu og taka tillit til eðlilegs húsnæðiskostnaðar. Lyfjakostnaður skal vera utan við rekstur hjúkrunarheimila sem og kaup á sérhæfðum hjálpartækjum.