Uppstokkun á tryggingakerfi öryrkja

– persónubundnir endurkomusamningar

- aukið fjárhagslegt öryggi og hvatar til að taka virkan þátt í samfélaginu

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggingakerfi öryrkja verði endurskoðað frá grunni. Það einfaldað, með það að markmiði að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði öryrkja og stuðla að því að öryrkjar hafi ávinning af því að afla sér tekna. Um leið vill Sjálfstæðisflokkurinn innleiða persónubundna endurkomusamninga sem auðveldar öryrkjum að taka þátt í almennum vinnumarkaði með tilliti til starfsgetu án þess að þeir verði fyrir umtalsverðri skerðingu á örorkulífeyri eins og nú er.

Uppstokkun á tryggingakerfinu verður að taka mið af því að öryrkjar eru afar fjölbreyttur hópur sem býr við misjafnar aðstæður en á það sameiginlegt að þurfa fjárhagslegan stuðning til lengri eða skemmri tíma. Ástæður örorku eru einstaklingsbundnar og þarfirnar mjög mismunandi. Horfa þarf til aðstæðna hvers einstaklings og hafa kerfin notendavæn og einstaklingsmiðuð. Greiðslur almannatrygginga til öryrkja þurfa að vera sanngjarnar og í samræmi við eðlilegar lífskjaratengdar viðmiðanir.


  • Gallar tryggingakerfis öryrkja eru margvíslegir meðal annars: 
  • Ráðstöfunartekjur eru of lágar þegar allt er talið, sérstaklega þeirra sem búa við hvað lökust kjör og aðstæður.  
  • Kerfið er flókið og ógangsætt.  
  • Miklar víxlverkanir milli almannatrygginga og lífeyrissjóða. 
  • Skerðingar vegna atvinnutekna of miklar og hvatar til að vinna eru ekki til staðar. 
  • Kerfið leyfir í ákveðnum tilvikum aðeins takmarkaða kaupmáttaraukningu. 

Persónubundinn endurkomusamningur

Margir öryrkjar hafa getu og vilja til að auka þátttöku sína á vinnumarkaðinum, en kerfið vinnur gegn þeim og refsar jafnvel fyrir að bæta hag sinn. Með persónubundnum endurkomusamningum er verið að ryðja úr vegi hindrunum til atvinnuþátttöku með jákvæðum fjárhagslegum hvötum. Réttur til að snúa til baka í fyrra kerfi verður tryggður.

  • Í stað örorkulífeyris frá Tryggingastofnun er tekið upp sérstakt endurkomuframlag
  • Samningurinn er til ákveðins tíma (t.d. 2-3 ár) og getur viðkomandi einhliða óskað framlengingar að teknu tilliti til framgangs á vinnumarkaði. 
  • Sá sem gerir endurkomusamning getur hvenær sem er sagt honum upp og hafið aftur töku örorkulífeyris eftir þeim reglum sem þar um gilda. 


Sjálfstæðisflokkurinn lítur á endurkomuleiðina sem fjárfestingu í fólki – fjárfestingu sem skilar sér til til viðkomandi einstaklings og til samfélagsins. Hann fær þá bæði tækifæri til að taka þátt í atvinnulífinu miðað við sína persónubundnu getu.  

Einstaklingur á örorkulífeyri fær með endurkomuleiðinni betri og öflugri hvata til að auka tekjur og bæta þannig lífskjörin sín. 


Samhliða verður að vinna markvisst að því að fjölga við möguleikum öryrkja á vinnumarkaðnum. Hlutastörf þurfa að vera í boði og hvetja verður fyrirtæki og opinberar stofnanir til þess að taka á móti öryrkjum í vinnu og aðlaga vinnuaðstæður eftir því́ sem við á. Skoða verður hvort ekki sé nauðsynlegt að koma á betra hvatakerfi (í gegnum skattkerfið) fyrir atvinnulífið.

Endurskoðun örorkulífeyris

Uppstokkun á tryggingakerfi öryrkja verður ekki gerð nema í nánu samráði við hagsmunasamtök þeirra og í samvinnu við lífeyrissjóðina. Sjálfstæðisflokkurinn vill að í þeirri vinnu verði byggt á þeim meginsjónarmiðum að öryrkjar njóti þess og hafi ávinning af því að afla sér tekna, meðal annars með endurkomusamningum í fyrra kerfi og einnig verði að tryggja öryrkjum sem hafa enga möguleika til atvinnuþátttöku . 

Afnema þarf krónu á móti krónu skerðingu og viðmiðið þarf að miðast við að tryggja lágmarkstekjur til lífsviðurværis án þess að draga úr hvötum til sjálfsbjargar. Einfalda verður kerfið og gera það gagnsærra og skiljanlegra. 

Sjálfstæði

Fleira þarf til en endurskoðun á kerfi örorkulífeyris. 

Tryggja verður sjálfstæði fatlaðra einstaklinga. Þeir eiga rétt til að stýra sinni þjónustu sjálfir m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA). Fjölga þarf NPA-samningum. Flutningur þessa málaflokks frá ríki til sveitarfélaga  hefur skapað erfiðleika í tengslum við fjármögnun þjónustunnar, sem þarf að leysa. 

Víða vantar stefnu og skilning á málefnum fatlaðra, allt frá grunnskóla- og framhaldsmenntun og fram eftir öllum aldrei, ekki síst aldraðra, en úr því verður ekki leyst nema með aðkomu allra ráðuneyta. Bæta verður samráð við hagsmunasamtök fatlaðra, samtök atvinnulífsins, auk verkalýðshreyfingarinnar.  

Virða á rétt allra til aðgengis að samfélaginu, á öllum sviðum þess.

Endurhæfing 

Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að leggja aukna áherslu á endurhæfingu og fjölga endurhæfingarúrræðum fyrir þá sem eru með skerta starfsorku vegna sjúkdóma eða slysa. Allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu eiga að fá tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. 


Leitast þarf við að bjóða upp á fjölbreytt úrræði í heimabyggð, en um leið þarf að þróa úrræði þvert á sveitarfélög til að gæta jafnræðis í þjónustu og stuðla að hagkvæmni.