Ábyrg efnahagsstjórn

Við tryggjum ábyrga efnahagsstjórn – forsenda þess að lífskjör á Íslandi batni enn frekar.

Halda þarf áfram þeirri efnahagsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um allt frá árinu 2013, en jafnframt sækja ákveðið fram með umbreytingum á ýmsum sviðum sem koma fram í kosningaáherslum flokksins.


Fjölmörg verkefni blasa við á flestum sviðum. Hvernig tekist verður á við þau mun ráða mestu um hvort hægt sé að bæta lífskjör enn meira. Mikilvægt er að tryggja sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma. Markmiðið er að rekstur ríkissjóðs verði orðinn jákvæður fyrir lok nýs kjörtímabils, fyrst og fremst með auknum útflutningstekjum og umbótum í opinberum rekstri. Leggja ber áherslu á að forgangsraða verkefnum og virkja einkaframtakið betur við veitingu opinberrar þjónustu.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að fækka ríkisstofnunum, draga úr þátttöku ríkisins á fjármálamörkuðum með sölu á hlutabréfum í bönkunum, og einfalda regluverk með afnámi laga og hundruð reglugerða. Með því hefur samkeppnisstaða atvinnulífsins verið styrkt og líf fólks einfaldað.