Sóttvarnir / COVID-19

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að í frjálsu samfélagi er mikilvægt að stjórnvöld virði grunnréttindi borgaranna.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að í frjálsu samfélagi er mikilvægt að stjórnvöld virði grunnréttindi borgaranna. Í upphafi faraldursins var gripið til umfangsmikilla sóttvarnaaðgerða til að verja líf og heilsu landsmanna og tryggja um leið að heilbrigðiskerfið gæti sinnt nauðsynlegri þjónustu. Íslendingar hafa verið í forystu þjóða í baráttunni við veiruna. Nú þegar nær öll þjóðin er bólusett verður að slaka á sóttvarnaaðgerðum þannig að daglegt líf færist í eðlilegt horf. Nauðsynlegt er að halda áfram að vega hagsmuni út frá sóttvörnum og efnahags- og samfélagslegum áhrifum. Leggja á aukna áherslu á einstaklingsbundnar varnir. Um leið verður að huga sérstaklega að þeim sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma eða eru af öðrum sökum í viðkvæmri stöðu. Sóttvarnaaðgerðir til lengri tíma geta ekki tekið mið af stöðu Landspítala heldur þarf skipulag og stjórnun spítalans að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma. Auka verður svigrúm heilbrigðiskerfisins til að bregðast við, jafnt fjárhagslega sem skipulagslega. Standa verður áfram vörð um fleira en sóttvarnir þegar kemur að heilsu landsmanna.


Undir forystu formanns Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu var stærsti efnahagspakki Íslandssögunnar til hjálpar fólki og fyrirtækjum kynntur strax um miðjan mars 2020. Um 300 milljörðum króna varið upphaflega í aðgerðirnar en alls urðu aðgerðapakkarnir fjórir. Aðgerðirnar voru fjölbreyttar og höfðu þann tilgang sem fyrr segir að milda höggið eins og frekast var unnt bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Stefna ríkisstjórnarinnar var að gera frekar meira en minna. Í heildinni litið tókst það, þótt ljóst væri frá upphafi að ekki yrði öllum bjargað fyrir horn og heimsfaraldurinn myndi alltaf bitna mismikið á ólíkum geirum. Ný skýrsla OECD um íslenskt efnahagslíf sem birt var um mitt sumar 2021 segir enda að Ísland réttir nú úr kútnum eftir mikinn samdrátt í kjölfar heimsfaraldursins. Í megindráttum telur OECD að vel hafi gengið í baráttunni við faraldurinn og viðsnúningur sé fram undan í efnahagslífinu. Hagkerfið hafi sýnt viðnámsþrótt með öflugri einkaneyslu og vexti í öðrum útflutningi en ferðaþjónustu á tímum heimsfaraldurs. Peninga- og fjármálastefna hafi stutt vel við hagkerfið og rétt sé að viðhalda þeim stuðningi enn um sinn, en auka þurfi aðhaldið um leið og aðstæður leyfa með það að markmiði að stöðva skuldasöfnun líkt og stefnt er að í gildandi fjármálaáætlun.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur höfuðáherslu á að vel sé haldið á spilunum svo hægt sé að grípa tækifærin sem geta skapast með öflugri efnahagsstjórn.