Öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf

Grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins er að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða  velferðarkerfisins. Stjórnvöld eiga að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykki íslensks atvinnulífs. Huga verður sérstaklega að umhverfi þeirra er varðar skatta, gjöld og regluverk til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra.


Einfaldara regluverk

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa verið stigin markviss skref til að einfalda regluverk atvinnulífsins, auka samkeppnishæfni þess og ýta undir stofnun nýrra fyrirtækja og nýsköpun. Enn er þó mikið verk óunnið. Það þarf að vera einfalt að stofna og reka fyrirtæki og það þarf að vera einfalt fyrir fyrirtæki að ráða starfsfólk. Skattaumhverfi verður að sníða með þeim hætti að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni og þannig að almennt sé ekki þörf fyrir sértækar ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum.

Aukin framleiðni er forsenda hagvaxtar og aukin framleiðni byggir á nýsköpun. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld skapi umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins. Bæta þarf samkeppnisumhverfi, laga- og regluverk þannig að hagsmunir almennings séu alltaf hafðir að leiðarljósi. Ein leið að þessu er að sameina Samkeppniseftirlitið og Neytendastofu.


Sókn í matvælaframleiðslu

Sérstaða íslensks landbúnaðar er styrkur hans og tryggja þarf fjölbreytta búskaparhætti á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna. Huga þarf sérstaklega að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun s.s. sölu afurða beint frá býli á neytendamarkað. Landbúnaður er mikilvægur í aðgerðum í loftslagsmálum og getur með hagkvæmum hætti skipt sköpum. 


Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Atvinnugreinin er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og gefur aukin tækifæri til verðmætasköpunar. 


Öflug ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er og verður einn af máttarstólpum íslenskrar atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Langtímastefnumótun í samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar hefur reynst farsæl og á því samstarfi þarf að byggja áfram. Tryggja verður samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar, stilla gjaldheimtu í hóf og einfalda regluverk.


Nýsköpun tryggir fjölbreytni

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur umhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja verið gjörbreytt. Lagður hefur verið traustur grunnur að fjölbreyttara atvinnulífi. Íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa haslað sér völl á margvíslegum sviðum. Rótgróin hátæknifyrirtæki standa styrkum fótum og sækja fram á alþjóðamörkuðum. Auka þarf samstarf opinberra stofnana og fyrirtækja við nýsköpunar- og sprotafyrirtæki ekki síst með útvistun verkefna.


Ríkið út úr samkeppnisrekstri

Það er grunnstef Sjálfstæðisstefnunnar að ríkið standi ekki í fyrirtækjarekstri. Draga skal ríkið út úr samkeppnisrekstri. Eftir velheppnaða sölu á 35% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka er eignarhald ríkisins á viðskiptabönkum enn mikið eða hátt í 425 milljarðar. Mikilvægt er að ríkið haldi áfram að losa um eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum jafnt og þétt á næstu árum. Tryggja verður dreift eignarhald á bönkum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á beina þátttöku almennings í atvinnulífinu með skattalegum hvötum.


Arðsöm nýting auðlinda

Arðsöm uppbygging og nýting auðlinda landsins í sátt við umhverfissjónarmið er lykilatriði í framtíðaruppbyggingu íslensks hagkerfis. Sjálfbær nýting orkuauðlinda byggir undir árangur í loftslagsmálum. Þær atvinnugreinar sem nýta náttúruauðlindir í eigu hins opinbera eiga að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir. Þá þarf að gæta þess að nýtingar- og eignarréttur sé virtur í hvívetna.


Lægri byggingarkostnaður

Byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis á Íslandi er einn sá hæsti í Evrópu. Sú umgjörð sem yfirvöld hafa mótað fyrir byggingariðnaðinn er óskilvirk, tímafrek og dýr. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leiða útgönguna út úr frumskógi reglugerða og hamlandi opinberra afskipta af byggingariðnaðinum