Frjáls alþjóðaviðskipti
Tryggjum frjáls alþjóðaviðskipti – höldum áfram að opna markaði um allan heim fyrir íslenskum útflutningi.
Eitt mesta hagsmunamál íslensks atvinnulífs er greiður aðgangur að erlendum mörkuðum. EES-samningurinn er mikilvægur en einnig tvíhliða fríverslunarsamningar við aðrar þjóðir. Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram að opna markaði um allan heim fyrir íslenskum útflutningi.
Áríðandi er að áfram verði haldið við að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að tækifæri til áhrifa á öllum stigum mála séu nýtt til fulls, meðal annars með aukinni skilvirkni í samræmi við tillögur sérfræðihópa um framkvæmd EES-samningsins.
Sjálfstæðisflokkurinn telur framsal valdheimilda til stofnana Evrópusambandsins óheimilt og brjóti það gegn tveggja stoða kerfi EES. Mikilvægt er að tryggja framkvæmd EES-samningsins á grundvelli tveggja stoða kerfisins.
Áréttað er að hagsmunir Íslands eru best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins. Mikilvægt er að tryggja að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu.